1300 HeForShe á tveimur vikum

Rúmlega 1300 karlmenn á öllum aldri gerðust HeForShe á Íslandi á síðustu tveimur vikum.

„Það er frábær árangur en við getum gert svo miklu betur,“ segir Hanna Eiríksdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi. „Það er ekki hægt að vinna leikinn ef aðeins helmingur liðsins tekur þátt. Til þess að ná raunverulegu jafnrétti þurfum við öll, hvert og eitt, að gera upp við okkur sjálf hvernig við ætlum að leggja okkar af mörkum í baráttunni fyrir kynjajafnrétti.“

Landsnefnd UN Women á Íslandi hvetur alla þá sem hafa skráð sig sem HeForShe að sýna skuldbindingu sína í verki. Það má gera, t.d. með því að:

… Beita sér fyrir jöfnum hlut karla og kvenna í orði sem og borði og hvetja aðra karlmenn og stráka til að gera slíkt hið sama.

…. Láta í sér heyra þegar maður verður uppvís að óréttlæti í garð kvenna og stúlkna á vinnustöðum, skólum, í almannarýminu og á netinu.

… stuðla að hugarfarsbreytingu með því að leggja sig í líma við að uppræta niðurlægjandi orðræðu um konur og taka þátt í breyta úreltum staðalímyndum um kynjahlutverk; innan heimilis, á vinnustöðum, við uppeldi barna sinni og víðar.

… mana næsta karlmann sér við hlið til að leggja baráttunni fyrir jafnrétti lið með því að gerast HeForShe.“

…styrkja verkefni UN Women og veit þar með konum í fátækustu löndum heims byr undir báða vængi.

„Réttlátara samfélag er undir okkur komið. Kynjajafnrétti snertir okkur öll og það er á ábyrgð okkar allra að koma á raunverulegu jafnrétti í heiminum. Það tekur aðeins eina kynslóð að breyta þessu,“ segir Hanna.

HeForShe átakið heldur áfram næstu mánuði. UN Women á Íslandi hafa nú sett sér ný markmið, að ná Frökkum sem eiga nú 13.032 HeForShe.

Related Posts