Barbershop verkfærakistan kynnt í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna

Við hjá landsnefnd UN Women á Íslandi ásamt íslenskum stjórnvöldum kynntum Barbershop verkfærakistu í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna þann 16. mars sem er ætluð þeim sem vilja hvetja karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Verkfærakistan var þróuð af landsnefnd UN Women á Ísland í samstarfi við íslensk stjórnvöld og var afhent HeForShe, alþjóðlegri hreyfingu UN Women á viðburði sem haldinn var á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna.

Barbershop verkfærakistan er aðgengileg á heimasíðu HeForShe og veitir nákvæmar leiðbeiningar fyrir ólíka hópa um skipulagningu ólíkra viðburða sem allir hafa það þó að markmiði að virkja karla til að beita sér fyrir kynjajafnrétti og fá karlmenn til að tala saman um kynjajafnrétti í sínu nærumhverfi. Hugmyndin á bak við verkfærakistuna, er að ná til karla og stráka, óháð staðsetningu eða starfsgeira.

Sérstakur viðburður var haldinn til að kynna verkfærakistuna á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir. Viðburðurinn var ákaflega vel sóttur og þurfti fólk frá að hverfa þar sem fullt var útúr dyrum. Þorsteinn Víglundsson, félags- og jafnréttismálaráðherra hélt stutta ræðu á viðburðinum og þakkaði konum sem hafa leitt jafnréttisbaráttunni hingað til og nú væri tími til kominn að karlmenn stigju inn í baráttuna af fullum krafti, Elizabeth Nyamayaro, sem leiðir HeForShe verkefnið á alþjóðavísu, þakkaði Íslandi fyrir stuðninginn við hreyfinguna og sagði verkfærakistuna mikilvægt framlag til að auka þátttöku karla þegar kemur að baráttunni fyrir kynjajafnrétti. Sýnt var myndband frá utanríkisráðherra Íslands sem ítrekaði einnig mikilvægi þess að karlmenn beittu sér fyrir kynjajafnrétti. Inga Dóra Pétursdóttir, framkvæmdastýra UN Women á Íslandi hélt einnig stutta tölu um verkefnið og Ásdís Ólafsdóttir sem þróaði verkfærakistuna og leiddi gerð verkfærakistunnar fyrir hönd landsnefndarinnar útskýrði verkfærin og hvernig megi nýta sér hana í fjölbreyttum aðstæðum.

Verkfærakistan er nú aðgengileg á heimasíðu HeForShe hér: http://www.heforshe.org/en/barbershop

Related Posts