HeForShe 1 árs

HeForShe

Nú er ár liðið síðan HeForShe átak UN Women fór sem eldur um sinu netheima. Af því tilefni efnir UN Women á Íslandi til HeForSh- átaks dagana 21. sept – 5.okt.

Síðastliðið haust hélt velgjörðarsendiherra UN Women, leikkonan Emma Watson áhrifamikla ræðu í New York sem vakti heimsathygli. Þar hvatti hún karlmenn til að heita stuðningi við jafnréttisbaráttuna. Ræða Watson var hluti af herferð UN Women HeForShe.

Það er óhætt að segja að Ísland hafi slegið met í fyrra en um 8.500 karlmenn og strákar á Íslandi skráðu sig og gerðust HeForShe á aðeins örfáum dögum. Samtakamáttur landsmanna vakti eftirtekt út um allan heim og aðeins í Bretlandi skráðu fleiri karlmenn sig sem HeForShe. Þess má geta að UN Women veitti Íslandi viðurkenningu í ljósi þess að 1 af hverjum 20 karlmann á Íslandi hafi gerst HeForShe.

Þrátt fyrir þann frábæra árangur sem náðst hefur með jafnréttisbaráttunni á síðustu áratugum er enn langt í land. Enn hallar á konur allsstaðar í heiminum og á öllum vígstöðvum. Samkvæmt rannsókn á vegum UN Women verður jafnrétti náð árið 2095 ef við höldum áfram á sömu braut á sama hraða. Með stráka og karlmenn um borð er talið að jafnrétti muni nást helmingi fyrr. Því þurfum við að spýta í lófana.

Af tilefni árs afmælis HeForShe skorar UN Women á Íslandi alla karlmenn og stráka hér á landi til að stíga skrefið og gerast HeForShe hér á síðunni.

Markmiðið er að ná allavega 10 þúsund HeForShe hér á landi á næstu tveimur vikum.

Svíar eru með 9.000 karlmenn skráða sem HeForShe, leyfum þeim að eiga Eurovision – við skulum taka HeForShe með trompi og fá allavega 10 þúsund karlmenn og stráka til að skrá sig á www.heforshe.is

Related Posts