Hjúkrunarfræðingurinn, Gunnar vekur heimsathygli í HeForShe myndbandi

Í septembermánuði fagnaði UN Women tveggja ára afmæli HeForShe hreyfingarinnar sem miðar að því að hvetja karlmenn og stráka sérstaklega til að beita sér fyrir kynjajafnrétti.
Í tilefni afmælisins voru fjórar þjóðir valdar sem sýnt hafa fram á markverðan árangur við að jafna hlut kynjanna og er Ísland ein þeirra þjóða. Af því tilefni kom tökulið HeForShe til landsins og fékk að fylgja Gunnari Péturssyni, hjúkrunarfræðingi og tvíburapabba að störfum einn dag.

Samkvæmt  alþjóðlega efnahagsráðinu (World Economic Forum) ríkir mesta jafnrétti á Íslandi. Þrátt fyrir það eru aðeins tvö prósent starfandi hjúkrunarfræðinga hér landi karlmenn. Gunnar er einn þeirra karlmanna sem tekur þátt í því að brjóta niður staðalímyndir um hlutverk kynjanna á vinnumarkaði og tekur virkan þátt í átaki Félags íslenskra íslenskra hjúkrunarfræðinga við að hvetja karlmenn til að læra hjúkrunarfræði.
Gerð voru þrjú önnur myndbönd í tilefni afmælisins þar sem leiðandi öfl HeForShe hreyfingarinnar voru sóttir heim til Malaví, Indlands og Jórdaníu.
Myndböndin eru hluti af HeForShe átakinu Impact 10x10x10 sem miðar að því að knýja fram breytingar til að jafna stöðu kynjanna í efnahagslegum-, félagslegum og pólitískum skilningi. Tíu þjóðarleiðtogar, tíu forstjórar alþjóðlegra stórfyrirtækja og tíu háskólarektorar víðsvegar um heiminn  eru leiðandi í baráttunni og hafa lagt fram aðgerðaáætlun um hvernig þeir ætla að jafna hlut kynjanna í sínum geira. Til að tryggja árangur og normalisera viðmiðin hefur hver og einn leiðtogi á þessum þremur sviðum gefið út ákveðin loforð um að jafna hlut kynjanna. Forsætisráðherra Íslands, er einn tíu þjóðarleiðtoga sem leiðir HeForShe-átakið IMPACT 10x10x10.

Related Posts