Samstarf UN Women og Domino´s deildar karla

Heforshe samstarf við KKÍ og Dominos
Á myndinni eru: Marta Goðadóttir hjá UN Women, Hannes S. Jónsson formaður KKÍ, Snædís Baldursdóttir hjá UN Women og Birgir Örn Birgisson, framkvæmdastjóri Domino´s.

Í dag var haldinn blaðamannafundur vegna komandi úrslitakeppni Domino´s deildar karla sem hefst núna á fimmtudaginn.

Á fundinum var nýtt samstarfsverkefni kynnt til leiks þar sem Dominosdeildin og UN Women á Íslandi hafa tekið höndum saman í sameiginlegu HeForShe átaki.

Fyrirliðar karlaliða Domino´s deildarinnar skráðu sig sem HeForShe á fundinum og hétu því þar með að beita sér markvisst í baráttunni fyrir jöfnum hlut kynjanna á á öllum vígstöðvum. En markmið átaksins er að hvetja sérstaklega karlmenn til að láta til sín taka í baráttunni fyrir kynjajafnrétti og skrá sig sem HeForShe á www.heforshe.is

„Hingað til hefur gjarnan verið litið á þessa baráttu sem einkamál kvenna. Samkvæmt rannsókn á vegum UN Women verður kynjajafnrétti náð í heiminum árið 2095 ef við höldum áfram á sömu braut á sama hraða. Með stráka og karlmenn um borð er talið að kynjajafnrétti verði náð helmingi hraðar. Það hefur verið margsannað að íþróttaiðkun og þar með talið körfuboltaiðkun brýtur niður staðlaðar hugmyndir um kynin, eykur sjálfstraust stelpna og stráka og ýtir undir leiðtogahæfni. Fyrir vikið fögnum við sérstaklega þessu frábæra samstarfi,“ segir Marta Goðadóttir, kynningarstýra UN Women á Íslandi.

Brynjar Þór Björnsson, fyrirliði KR, skráir sig á HeForShe.is og Justin Shouse, Stjörnunni, og Haukur Helgi Pálsson, Njarðvík, fylgjast með.

„Það er alltaf mikil tilhlökkun fyrir úrslitakeppnum Domino´s deildanna og núna er tilhlökkunin enn skemmtilegri og meiri með samstarfinu við HeForShe. Í undirbúningnum á þessu samstarfi höfum við verið svo heppin að kynnast enn betur þessu þarfa átaki og að fá karlmenn sérstaklega til að láta í sér heyra í baráttunni fyrri kynjajafnrétti. Jafnframt erum við í körfuboltanum afar stolt af því að UN women hafi valið það að koma í samstarf við Domino´s deildina til að vekja athygli á þessu mikilvæga málefni. Mig langar að hvetja alla karlmenn í íþróttum, ekki bara í körfubolta, til að skrá sig á vefnum www.heforshe.is og gerast þannig boðberar kynjajafnréttis,“ segir Hannes S. Jónsson formaður KKÍ.

HeForShe miðar að því að vekja karlmenn til vitundar um hvernig þeir geta lagt baráttunni fyrir kynjajafnrétti lið í nærumhverfi sínu. Líkt og að sleppa því að hlæja að óviðeigandi bröndurum sem miða að því að niðurlægja konur á einhvern hátt, svara nettrollunum þegar þau fara yfir strikið með niðrandi orðalagi í garð kvenna og minna sig reglulega á að það eru ekki til neinar stelpu eða stráka íþróttir. Hægt er skrá sig og fræðast meira um hvað felst í að vera HeForShe á www.heforshe.is.

Í dag eru einn af hverjum tólf, yfir 18 ára gamlir karlmenn hér á landi, búnir að heita því að vera HeForShe. Markmiðið er að einn af hverjum fimm verði HeForShe.

Related Posts