Trudeau stimplar sig inn

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada og Phumzile framkvæmdastýra Un Women.

„Ég mun halda áfram að segja það hátt og snjallt að ég sé femínisti. Það þýðir einfaldlega að ég trúi á jafnrétti milli karla og kvenna. Þetta er eins og að segja að himininn er blár og grasið er grænt“.

Svona byrjaði Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada sem kom, sá og sigraði hug og hjörtu áhorfenda á sérstökum fundi með Phumzile Mlambo-Nckuga framkvæmdastýru UN Women á fundi kvennanefndar Sameinuðu þjóðanna fyrr í vikunni.

Óhætt er að segja að Trudeau sé partur af nýrri kynslóð leiðtoga sem finnst, eins og hann sagði sjálfur, sjálfsagt að berjast fyrir kynjajafnrétti, gegn rasisma og fyrir réttlæti fyrir alla. „Það sem ég hef verið að segja um jafnrétti í samfélaginu er sjálfsagður hlutur. Eina sem ég get sagt við því er duh“, sagði Trudeau á léttum nótum og uppskar mikinn hlátur í salnum og var þá að vísa m.a. til ríkisstjórnar sinnar sem er sú fyrsta í heiminum sem er með jafnan hlut karla og kvenna og fólki með fjölbreyttan bakgrunn.

Barátta fyrir kynjajafnrétti, réttindum samkynhneigðra, frumbyggja og fatlaðra. Þetta eru réttlætisbarátta okkar allra.

„Fólk tekur eftir því sem ég er að segja og finnst mikið til þess koma en ég er partur af kynslóð sem ólst upp við þessi gildi. Fyrir okkur er þetta sjálfsagður hlutur. Ég er í hópi nýrra ungra þjóðarleiðtoga sem er að koma fram á sjónarsviðið og það er okkar að taka þetta áfram“.

Af hverju ég?

Að komast á þennan stað var samt ekki auðvelt. Hann tók það fram að í Kanada eru t.d ekki jöfn kynjahlutföll á þinginu og í nokkur ár hefur hann verið að skoða af hverju það sé. Af hverju leita konur ekki í valdastöður jafnt á við karlmenn?

„Þegar ég var að setja saman ríkisstjórnina mína lenti ég í smá vandræðum. Það fyrsta sem að karlmaður spyr hvort hann hafi áhuga á að ganga til liðs við ríkistjórn mína er „Hvenær get ég byrjað“? Þegar þú spyrð konu sömu spurningu spyr hún „Af hverju ég og er ég nógu hæf í starfið“?

Það þarf að spyrja konu að meðaltali 14 sinnum áður en hún segir já, sagði Trudeau og tók það fram að svona konur taka ákvarðanir með alla fjölskylduna í huga og þess vegna sé mikilvægt að útbúa umhverfi fyrir konur í valdastöðum sem henta allri fjölskyldunni. Tók hann dæmi um kanadíska þingið og hvernig þau séu að skoða að breyta fundadagskrá, að gera fólki kleift að funda yfir netið til að koma til móts við alla. „Við þurfum að deila þeirri vinnu sem fram fer innan veggja heimilis jafnt á milli  hjóna svo að konur fái frekari tækifæri að taka að sér valdastöður, við verðum að hvetja karla til að taka fæðingarorlof. Við verðum að breyta infrastrúktúrnum sem var búinn til af gömlum, hvítum mönnum“ sagði Trudeau.

Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada.

Baráttan fyrir kynjajafnrétti ekki fyrir útvalda

Madame Phumzile bætti þá við það þegar hún fór var kosin á þing í fyrstu lýðræðislegu kosningunum í Suður afríku eftir afnám aðskilnaðarstefnunar þá var það fyrsta sem þurfti að gera var að setja upp salerni fyrir kvenkyns þingmenn og ráðherra. Það voru engin kvennaklósett í þinginu. Eins tók hún fram að mikilvægt sé að gefa ekki bara konum tækifæri til að komast í valdastöður heldur gefa þeim rými til að láta til sín taka.

Þess vegna viljum við ýta undir stjórnmálamenn eins og Trudeau sem hafa vald til þess að taka næsta skref og taka okkur þangað sem við þurfum að fara. Við megum ekki gleyma að baráttan fyrir auknu kynjajafnrétti er ekki fyrir útvalda.

Phumzile var þá spurð af fundastjóra hverjir það væri sem að hún vildi vinna með. Var framkvæmdastæra ekki lengi að svara: KARLMENN!

Réttlæti fyrir frumbyggjakonur

Hingað til hafa það verið konur sem hafa barist og krafist fyrir auknu kynjajafnrétti. Slagurinn var okkar. Þetta er stór slagur og löng vegferð og nú þurfum við fjölbreyttan hóp af fólki til að berjast með okkur. Við þurfum karlmenn með okkur í lið, við þurfum ungt fólk,  trúarleiðtoga úr öllum áttum. Það er einu sinni þannig að í flestum löndum eru það karlmenn sem stjórna og þess vegna verðum við að ná til þeirra. Á þeim tímapunkti bauð Phumzile forsætirsráðsherra Trudeau að gerast HeForShe.

Hann þáði það með þökkum og tók fram að þrátt fyrir góðan árangur í Kanada væri enn langt í land, sérstaklega hvað varðar kynbundinn launamun og ofbeldi gegn konum og þá sérstaklega í garð kandadískra frumbyggja kvenna. Á síðastliðnum 30 árum hafa þúsundir kvenna verið drepnar eða horfið sporlaust vegna sinnuleysis stjórnvalda eins og Trudeau kallaði það. Margir hafa kallað þetta ofbeldi og aðgerðarleysi stjórnvalda skömm Kanada.  Hann bauð þá þremur ráðherrum sínum að standa upp og kynnti sérstaklega dómsmálaráðherra Kanada sem er kona af frumbyggjaættum og tilkynnti að sérstök rannsóknarnefnd hefði verið sett á laggirnar til þess að  skoða hvað fór úrskeiðis og hversvegna ríkið veitti þessum konum ekki viðeigandi vernd og réttlæti. Óhætt að segja að hver einasta manneskja í salnum táraðist.

Að lokum tók Trudeau það fram að það væri mikill heiður að koma á fund kvennanefndarinnar og að kanadísk stjórnvöld ætli að gera allt sem í sínu valdi stendur til að vera boðberi breytinga um heim allan. Hann þakkaði karlmönnunum á fundinum sérstaklega fyrir að koma og sagði, „Við þurfum fleiri menn með okkur í lið þó ekki færri konur. Ætli við þurfum ekki bara stærra herbergi næst“.

Related Posts
Heforshe samstarf við KKÍ og Dominos